Enski boltinn

Útlit fyrir að Ronaldo byrji gegn Man. City

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar eina marki sínu til þessa á leiktíðinni með Manchester United, gegn Sheriff í síðasta leik fyrir landsleikjahléið.
Cristiano Ronaldo fagnar eina marki sínu til þessa á leiktíðinni með Manchester United, gegn Sheriff í síðasta leik fyrir landsleikjahléið. Getty/Oleg Bilsagaev

Útlit er fyrir að Cristiano Ronaldo verði í byrjunarliði Manchester United, í fyrsta sinn í sjö vikur, þegar liðið mætir meisturum Manchester City í stórleik um helgina í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

The Telegraph fjallar um þetta og bendir á að hvorki Marcus Rashford né Anthony Martial hafi getað æft af fullum krafti í vikunni en þeir eru að komast af stað eftir meiðsli. Því er óvíst hvort þeir geti mætt City á sunnudag.

Ljóst er hins vegar að fyrirliði United, Harry Maguire, kemur til með að missa alveg af leiknum vegna vöðvameiðslanna sem hann varð fyrir í 3-3 jafntefli Englands við Þýskaland á mánudaginn. Hann hafði þó misst sæti sitt í byrjunarliði United fyrir landsleikjahléið.

Rashford meiddist í 3-1 sigri United gegn Arsenal fyrir tæpum fjórum vikum en hann skoraði tvö mörk í leiknum. Martial hefur átt í vandræðum með meiðsli alla leiktíðina og misst af síðustu fimm leikjum vegna hásinarmeiðsla. Einu mínútur hans í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð voru þegar hann spilaði seinni hálfleikinn í 2-1 sigrinum gegn Liverpool 22. ágúst.

Eini leikur Ronaldos í byrjunarliði það sem af er leiktíð í ensku úrvalsdeildinni var í 4-0 tapinu skelfilega gegn Brentford 13. ágúst.

Ronaldo var aftur á móti í byrjunarliði United og skoraði úr víti í síðasta leik fyrir landsleikjahléið, í 2-0 útisigri gegn Sheriff í Moldóvu í Evrópudeildinni. Hann lék einnig báða leiki Portúgals frá upphafi til enda í Þjóðadeildinni, í 1-0 tapinu gegn Spáni og 4-0 sigrinum gegn Tékklandi, en var ekki á meðal markaskorara liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×