Handbolti

„Ég fékk bara fullt skotleyfi“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þorsteinn Leó Gunnarsson átti frábæra innkomu í íslenska liðið í kvöld.
Þorsteinn Leó Gunnarsson átti frábæra innkomu í íslenska liðið í kvöld. Vísir/Anton Brink

Þorsteinn Leó Gunnarsson átti frábæra innkomu er íslenska karlalandsliðið í handbolta vann sex marka sigur gegn Bosníu í undankeppni EM 2026 í kvöld.

Þorsteinn Leó kom ekkert við sögu í fyrri hálfleik, en tók málin í sínar hendur í þeim seinni og skoraði átta mörk úr níu skotum.

„Mér leið bara ótrúlega vel að koma hérna og spila fyrir framan fulla höll. Mér leið ekkert eðlilega vel þegar ég kom inn á og sjálfstraustið var í botni þannig þetta var bara geggjað,“ sagði Þorsteinn Leó í leikslok.

Eins og áður segir skoraði Þorsteinn átta mörk úr níu skotum og endaði sem markahæsti maður vallarins. 

„Ég fékk bara fullt skotleyfi og ég auðvitað nýtti mér það. Þeir sögðu mér bara að vaða á þetta og fara hundrað prósent. Ég gerði það bara.“

Þá segist hann geta komið með eitthvað annað að borðinu en íslensku strákarnir höfðu verið að gera í fyrri hálfleik þar sem liðið skoraði aðeins 12 mörk.

„Já klárlega. Ég kom með eitthvað nýtt inn í þetta. Þetta hafði kannski verið of mikið hnoð í fyrri, en ég kem með skotin af níu metrunum, sem kannski vantaði hjá okkur, og þar með opnaðist vörnin.“

Hann segir einnig að leikur kvöldsins sé gott veganesti í næsta leik þar sem Ísland heimsækir Georgíu næstkomandi sunnudag.

„Þetta gefur okkur gott sjálfstraust í næsta leik og eitthvað til að byggja á,“ sagði Þorsteinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×