Þar verður heimildarmyndin Ég skapa ekki tónlist, hún skapar mig eftir úkraínska leikstjórann Serhiy Bukovski sýnd og rennur 100% miðasölunnar til góðgerðasamtaka sem starfa í og fyrir Úkraínu. Myndin segir frá tónskáldinu Valentyn Vasylyovych Sylvestrov en ásamt sýningunni verða tónlistaratriði og listasýning og er viðburðurinn haldinn til heiðurs V. Sylvestrov sem átti 85 ára afmæli síðastliðinn föstudag.
Listsköpun og aktívismi
Þann áttunda október verður svo pallborðsumræða á RIFF hátíðinni í samstarfi við Artists4Ukraine sem ber nafnið The One Minutes Jr. Ukraine. Þar munu listamenn opna á umræður um áframhaldandi átök og hrylling í Úkraínu með áherslu á hvaða áhrif það hefur á unga Úkraínubúa. Einnig verður rætt hvernig listsköpun getur verið miðill fyrir aktívisma og tjáningu. Nánari upplýsingar má finna hér.
Blaðamaður ræddi við þrjá listamenn sem eru hluti af Arists4Ukraine, þau Alexander Zaklynsky, Olga Zherebetska og Anna Senik, en öll taka þau þátt í þeim viðburðum sem framundan eru.
Hvað getið þið sagt mér um listaverkin ykkar?
Olga (með hönnunar sýningu í Rammagerðinni): Ég hef nú í nokkur ár verið að stúdera arkitektúr í Úkraínu og þá sérstaklega ákveðinn stíl sem kallast Hutsul Secession. Upphafsmaður stílsins er úkraínski arkitektinn Ivan Levynskyi og þessi stíll er sambland af úkraínskum kóðum og skrautmunum í Art Deco stíl. Fötin sem ég hanna eru túlkun á þessum stíl. Vintage litaðir glergluggar, keramik og form blandast við handavef og útsaums tækni í fötunum mínum.
Anna (með ljósmyndasýningu í Hörpu): Þessar myndir sem ég er að sýna standa fyrir hefðbundnar myndir fyrir ólík svæði í Úkraínu. Þegar ég skapaði þær notaðist ég bæði við sanna úkraínska hluti sem og nákvæmar eftirlíkingar gerðar á fagmannlegan hátt.
Hvaðan sækið þið innblástur í listsköpun ykkar?
Olga: Aðal uppspretta innblástursins kemur frá þessum formum akritektúrs og skrautmuna í Úkraínu. Þessir kóðar frá 20. aldar arkitektúrnum í Úkraínu hafa ekki verið teknir fyrir sem slíkir en það eru þeir sem eru vafðir inn í áþreifanleg efni í fatalínum mínum. Ég trúi því að arkitektúr sé óaðskiljanlegur hluti af tískunni.
Anna: Fyrir mér er ómögulegt að finna ákveðna uppsprettu innblásturs. Öll lifuð reynsla og fagurfræðileg neysla hefur hjálpað ímyndunaraflinu mínu að fá nýjar hugmyndir og finna þeim farveg. Það er samt auðvitað oft þjóðfræði, slafnesk goðafræði og hefðbundið landsbyggðar líf en stundum getur það líka verið kaflar úr mínu eigin lífi, lifaðar tilfinningar eða sögur frá fólki.
Hvað finnst ykkur öflugast við að geta skapað list?
Olga og Alexander: Listsköpun getur verið heillandi, fræðileg og heimspekileg fyrir suma listamenn. List er skoðuð af ýmsu fólki á margan hátt. List nær árangri þegar hún miðlar sjónrænni skýringu á táknum og erkitýpum sem við búum við. List getur kennt fólki nýjar leiðir við að sjá hlutina, vera til staðar og um leið týna sér í hugsun.
List hjálpar fólki að finna tilgang í lífinu og veitir frelsi til að tjá hugmyndir, sem er óaðskiljanlegur hluti af lífi mannsins.
Við vonum að listin og tískan sem verður til sýnis í Hörpu hvetji fólk til að sjá úkraínska menningu í nýju ljósi þar sem andi listarinnar, menningin og skapandi frelsi er í forgrunni.
Helsti kostur listsköpunar er að nýta persónulegt og skapandi frelsi, á tímum þegar einmitt það hefur valdið ofsóknum gegn mörgum listamönnum og hugsuðum.

Anna: Mikilvægasti og stórkostlegasti kostur sköpunar er hamingjutilfinningin sem kemur frá því sem þú ert að gera. Viðurkenning almennings og huglæg gildi tengd því eru ekki eins mikilvæg. Listamaður á alltaf að stjórnast af ástinni.