Enski boltinn

Ten Hag hefur enn trú á Maguire: „Ég stend með honum af því ég hef trú á honum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erik Ten Hag hefur enn tröllatrú á Harry Maguire.
Erik Ten Hag hefur enn tröllatrú á Harry Maguire. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segist enn hafa trú á fyrirliða liðsins, Harry Maguire, þrátt fyrir þá gagnrýni sem varnarmaðurinn hefur þurft að þola undanfarnar vikur.

Maguire hefur verið gagnrýndur af mörgum stuðningsmönnum United og enska landsliðsins fyrir frammistöðu sína undanfarnar vikur, en hann gerði meðal annars mistök sem leiddu til tveggja marka er England og Þýskaland gerðu 3-3 jafntefli síðastliðinn mánudag.

Hollenski knattspyrnustjórinn Erik ten Hag segist þó ekki vera búinn að missa trúna á miðverðinum og er hann viss um að Maguire snúi genginu við.

„Ég stend með honum af því ég hef trú á honum,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi þegar hann var spurður út í Maguireí dag.

„Þetta snýst bara um hann. Hann snýr þessu við. Ég er viss um það. Ég er algjörlega sannfærður um það.“

Þrátt fyrir þessa tröllatrú Hollendingsins á Maguire hefur hann þurft að sætta sig við bekkjarsetu í undanförnum leikjum. Ten Hag hefur stillt þeim Lisandro Martines og Raphael Varane upp í miðri vörninni og Portúgalinn Bruno Fernandes hefur borið fyrirliðabandið í stað Maguire.

„Jafnvel þegar hann er ekki í liðinu þá hefur hann verið að æfa mjög vel,“ bætti Ten Hag við.

„En það sem er mikilvægara er það að hann býr yfir mjög miklum gæðum. Ef þið horfið yfir ferilinn hans þá á hann tæplega 50 leiki fyrir England. Hann hefur staðið sig mjög vel bæði fyrir Leicester og Manchester United. Það sem við sjáum er að þakið er hátt og hann býður upp á mikla möguleika,“ sagði Ten Hag að lokum.

Maguire verður þó ekki með United þegar liðið heimsækir nágranna sína í Manchester City á sunnudaginn vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×