Enski boltinn

Keane ósáttur við Man Utd - „Algjör vanvirðing við Ronaldo“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. vísir/Getty

Fyrrum fyrirliði Man Utd og einn sigursælasti leikmaður í sögu þess er algjörlega forviða á því hvernig komið er fyrir annarri goðsögn hjá félaginu, Cristiano Ronaldo.

Keane lét gamminn geysa eftir Manchester slaginn í dag þar sem Ronaldo sat allan tímann á bekknum. Erik Ten Hag, stjóri Man Utd, lét hafa eftir sér í leikslok að hann hafi ekki sett Ronaldo inn á í stöðunni 4-0 af virðingu við portúgalska markahrókinn.

Keane gefur lítið fyrir þær útskýringar. Hann segir það hverjum manni ljóst að Ronaldo sé ekki ætlað neitt hlutverk í liðinu og því sé það til skammar fyrir félagið að það skuli ekki hafa leyft Ronaldo að fara í sumar.

„Manchester United er að vanvirða Ronaldo. Þeir áttu að leyfa honum að fara í sumar,“ segir Keane.

„Þú heldur ekki í Ronaldo til að láta hann sitja á bekknum. Hann er einn besti leikmaður knattspyrnusögunnar og hann hafði möguleika á að fara í önnur félög í sumar. Allt tal um að það hafi enginn viljað hann er bara bull. Hann hafði fjóra til fimm góða möguleika; ég veit það fyrir víst.“ sagði Keane ákveðinn.

Hinn 37 ára gamli Ronaldo hefur komið við sögu í átta leikjum á tímabilinu og skorað eitt mark. 

„Við vitum að hann er ekki að fara að spila Ronaldo. Hann hefur fengið að spila í Evrópudeildinni og þetta á bara eftir að enda illa.  Þú heldur ekki Ronaldo hjá þér, manni með þetta markahlutfall til að hanga á bekknum. Þetta er algjör vanvirðing,“ segir Keane.


Tengdar fréttir

Ten Hag: „Okkur skorti trú“

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, var eðlilega súr og svekktur eftir 6-3 tap liðsins gegn Englandsmeisturum Manchester City í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×