Enski boltinn

Sagði að strákarnir hans Gerrards spiluðu á hraða snigilsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steven Gerrard tók við Aston Villa um mitt síðasta tímabil.
Steven Gerrard tók við Aston Villa um mitt síðasta tímabil. getty/Clive Brunskill

Jesse Marsch, knattspyrnustjóri Leeds United, gagnrýndi leikstíl Aston Villa eftir markalaust jafntefli liðanna í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Leeds var manni færri nær allan seinni hálfleikinn eftir að Kólumbíumaðurinn Luis Sinisterra var rekinn af velli á 48. mínútu.

Marsch var í leikbanni og fylgdist því með gangi mála úr stúkunni á Elland Road. Hann var ekki hrifinn af því sem hann sá og fannst Villa-menn tefja leikinn full mikið.

„Ég finn mig nánast knúinn til að biðja stuðningsmennina afsökunar. Þeir fengu ekki skemmtilegan leik, heldur leik sem andstæðingurinn hægði á allt frá upphafsflauti og stuðningsmennirnir nutu þess ekki að koma á Elland Road eins og þeir ættu að gera,“ sagði Marsch. 

„Þetta er besta deild í heimi og stuðningsmenn okkar koma ekki hingað til að horfa á leik á hraða snigilsins.“

Steven Gerrard, stjóri Villa, gaf ekki mikið fyrir gagnrýni kollega síns. „Var hann ósáttur við tafir þeirra eftir að þeir misstu mann af velli? Þetta gengur í báðar áttir. Ég hef ekki áhuga á Jesse og skoðunum hans. Við gerum það sem til þarf. Ég hef bara áhuga á Villa.“

Leeds er með níu stig í 12. sæti deildarinnar en Villa í 14. sætinu með átta stig. Villa hefur leikið átta leiki en Leeds sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×