Enski boltinn

Enginn áhugi á Ronaldo sem verður um kyrrt hjá United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo er aðeins kominn með eitt mark á tímabilinu.
Cristiano Ronaldo er aðeins kominn með eitt mark á tímabilinu. getty/Manchester United

Allt bendir til þess að Cristiano Ronaldo klári tímabilið með Manchester United því engin af stóru liðunum í Evrópu vilja fá hann.

Samkvæmt heimildum ESPN eru hverfandi líkur á því að Ronaldo fari frá United í janúar þar sem áhuginn á portúgölsku markamaskínunni er takmarkaður.

Ronaldo hefur ekki átt fast sæti í liði United á tímabilinu og ekki sýnt sínar bestu hliðar þegar hann hefur fengið tækifæri. Hann var í byrjunarliðinu gegn Omonia í Evrópudeildinni í gær og lagði upp þriðja mark United fyrir Marcus Rashford. Ronaldo fór hins vegar illa með nokkur færi og hann hefur aðeins skorað eitt mark í vetur. Það kom úr vítaspyrnu gegn Sherriff Tiraspol í Evrópudeildinni.

Ronaldo vildi fara frá United í sumar en áhuginn á honum frá stærstu liðum Evrópu var takmarkaður og ekkert tilboð frá þeim barst í leikmanninn. Og ef marka má frétt ESPN hefur áhuginn á Portúgalanum svo sannarlega ekki aukist.

Ronaldo, sem er 37 ára, sneri aftur til United í fyrra og var markahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili með 24 mörk í öllum keppnum.

United vann Omonia, 2-3, í gær og er í 2. sæti E-riðils Evrópudeildarinnar með sex stig. Næsti leikur United er gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×