Enski boltinn

Sonur David Beckham æfir hjá ensku félagi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romeo Beckham í leik með Inter Miami II.
Romeo Beckham í leik með Inter Miami II. Getty/Andrew Katsampes

Romeo Beckham æfir þessa dagana með varaliði enska félagsins Brentford en þessi tvítugi strákur er elsti sonur goðsagnarinnar David Beckham og Kryddpíunnar Victoria Beckham.

HK-ingurinn Valgeir Valgeirsson reyndi að fara þessa leið þegar hann kom á láni til enska félagsins fyrir nokkrum árum eftir að hafa slegið í gegn í deildinni hér heima.

Brentford býður leikmönnum tækifæri að sýna sig og sanna og þykir staðsetning félagsins í London kom sér vel í tilfelli Romeo. Romeo þáði því boð um að æfa með Lundúnafélaginu eftir að tímabilinu lauk í Bandaríkjunum.

ESPN segir frá þessari þróun mála hjá Romeo en þar er þó tekið fram að hann sé í raun ekki á reynslu hjá enska félaginu eða að það séu líkur á því að félagið kaupi hann frá Inter Miami.

Romeo er nefnilega enn á samningi hjá Inter Miami sem er félag sem faðir hans setti á laggirnar á Flórída árið 2018. Romeo Beckham lék með Inter Miami II á síðustu leiktíð og gaf meðal annars tíu stoðsendingar í tuttugu leikjum.

Romeo er í hópi margra leikmanna sem hafa fengið að æfa með varaliði Brentford.

Hlutirnir gengu ekki alveg upp hjá Valgeiri Valgeirssyni um árið sem snéri aftur til HK sumarið eftir. Hann er núna orðin leikmaður Örebro SK í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×