Enski boltinn

Leikmaður Brighton þarf að hætta vegna hjartasjúkdóms

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Enock Mwepu í leik Brighton og Leicester City sem reyndist hans síðasti á ferlinum. Brighton vann leikinn, 5-2.
Enock Mwepu í leik Brighton og Leicester City sem reyndist hans síðasti á ferlinum. Brighton vann leikinn, 5-2. getty/Bryn Lennon

Enock Mwepu, miðjumaður enska úrvalsdeildarliðsins Brighton, hefur neyðst til að leggja skóna á hilluna vegna hjartavandamála. Hann er aðeins 24 ára.

Mwepu veiktist þegar hann var með landsliði Sambíu í síðasta landsleikjahléi. Hann dvaldi á spítala í Malí og fór síðan í frekari skoðanir þegar hann sneri aftur til Englands. Þá kom í ljós Mwepu er með sjaldgæfan arfgengan hjartasjúkdóm. Hann kemur venjulega ljós síðar á lífsleiðinni og sést ekki í venjulegri hjartaskoðun.

Í tilkynningu frá Brighton segir að eini kosturinn í stöðunni fyrir Mwepu sé að leggja skóna á hilluna því sjúkdómurinn getur ágerst við íþróttaiðkun.

Brighton keypti Mwepu frá Red Bull Salzburg sumarið 2021. Hann lék 27 leiki fyrir enska liðið og skoraði þrjú mörk. Mwepu lék 23 leiki fyrir sambíska landsliðið og skoraði í þeim sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×