Vargur tryggði Ármanni hnífalotuna og því féll það í hlut NÚ að sækja í fyrri hálfleik.
NÚ gekk vel að koma sprengjunni fyrir framan af þar sem Bl1ck og Ravle opnuðu lotur og restin af liðinu gaf fá færi á sér. Leikstíllinn var einfaldur og samhæfður sem skilaði sér í 5–2 forskoti.
Ármann sneri þá blaðinu við. Vargur skellti í lás á rampinum á meðan Ofvirkur var hreyfanlegur til að skapa tækifæri annars staðar á kortinu. Þannig unnust hvorki meira né minna en átta lotur í röð og staðan allt önnur en útlit var fyrir í upphafi leiks
Staða í hálfleik: Ármann 10 – 5 NÚ
Liðsmenn NÚ voru ekki af baki dottnir og var vörnin þeirra afar þétt. Aftur voru Bl1ck og Ravle í aðalhlutverki í að ná tökum á leiknum og vann NÚ fyrstu þrjár lotur síðari hálfleiks.
Lið Ármanns var bitlaust í upphafi en Hundzi átti stórleik í þriggja lotu runu Ármanns.
Það var langt í land fyrir NÚ en með árásargjarnan Bl1ck í framlínunni kræktu þeir sér í 7 lotur til viðbótar. NÚ var við það að vinna leikinn í 30. lotu en Bjarni náði ekki að aftengja sprengjuna. Því fór leikurinn í framlengingu.
Staða eftir venjulegan leiktíma: Ármann 15 – 15 NÚ
NÚ sýndi strax yfirburði í framlengingunni og vann fyrstu þrjár loturnar með sterkum varnarleik. Ármann klóraði í bakkann þegar Vargur tók stjórn á rampinum aftur en það dugði ekki til.
Lokastaða: Ármann 17 – 19 NÚ
Leikurinn skildi því á milli liðanna þar sem NÚ er nú með 8 stig og einungis eitt tap á tímabilinu, en Ármann hefur tapað tveimur leikjum og er með 6 stig.
Næstu leikir liðanna:
- Breiðablik – NÚ, laugardaginn 15/10, klukkan 17:00.
- Þór – Ármann, laugardaginn 15/10, klukkan 19:00.
Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.