Enski boltinn

Samherji Dagnýjar fékk rasísk skilaboð eftir slagsmál

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hawa Cissoko kýlir Söruh Mayling í leik Aston Villa og West Ham United um helgina.
Hawa Cissoko kýlir Söruh Mayling í leik Aston Villa og West Ham United um helgina. getty/Harriet Lander

Hawa Cissoko, leikmaður West Ham United, fékk rasísk skilaboð og hótanir eftir að hún var rekinn af velli gegn Aston Villa í ensku kvennadeildinni á laugardaginn.

Cissoko fékk rautt spjald undir lok leiks fyrir að kýla Söruh Mayling, leikmann Villa. Hún lenti síðan í útistöðum við varamenn Villa þegar hún gekk af velli. Ekki nóg með það heldur var Paul Konchesky, þjálfari West Ham, einnig rekinn af velli fyrir átök við þjálfarateymi Villa.

Málinu var ekki lokið því á laugardagskvöldið greindi Cissoko frá því að henni hefðu borist hótanir. Samkvæmt Daily Mail fékk Cissoko einnig rasísk skilaboð eftir leikinn gegn Villa.

Dagný Brynjarsdóttir kom West Ham á bragðið gegn Villa strax á 2. mínútu. Honoka Hayashi skoraði annað mark liðsins tólf mínútum seinna og Hamrarnir voru 0-2 yfir í hálfleik. Alisha Lehmann klúðraði vítaspyrnu fyrir Villa á 73. mínútu en fjórum mínútum síðar minnkaði Kenza Dali muninn í 1-2. Nær komumst heimakonur þó ekki.

West Ham og Villa eru bæði með sex stig í ensku kvennadeildinni en Hamrarnir hafa leikið einum leik meira. Næsti leikur West Ham er gegn Reading á sunnudaginn.

Cissoko, sem er 25 ára, kom til West Ham frá Soyaux í Frakklandi fyrir tveimur árum. Hún hefur leikið sjö leiki fyrir franska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×