Enski boltinn

Braut reglur með því að taka af sér legghlífarnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Saïd Benrahma með og án legghlífa.
Saïd Benrahma með og án legghlífa. vísir/getty

Saïd Benrahma, leikmaður West Ham United, braut reglur þegar hann spilaði án legghlífa í leiknum gegn Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni.

Alsíringurinn kom inn á sem varamaður eftir rúmlega klukkutíma leik. Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka tók hann af sér legghlífarnar og kláraði leikinn án þeirra.

Benrahma braut þar með reglur sem allir fótboltamenn verða að fara eftir, það er að nota legghlífar. Dómari leiksins á Anfield, Stuart Atwell, tók þó ekki eftir neinu en þetta fór ekki framhjá vökulum augum netverja sem voru duglegir að benda á brot Benrahmas.

West Ham tapaði leiknum, 1-0, en Darwin Núnez skoraði eina markið á 22. mínútu. West Ham var ekki lakari aðilinn og hefði hæglega getað skorað í leiknum. Besta færið fékk Jarrod Bowen en Alisson varði vítaspyrnu hans á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Næsti leikur West Ham er gegn Bournemouth á heimavelli á mánudaginn. Hamrarnir eru í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×