Enski boltinn

Svaf ekki í tvo daga fyrir stórleik sinn á móti Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Guimaraes fagnar marki í leik með Newcastle United.
Bruno Guimaraes fagnar marki í leik með Newcastle United. Getty/Stu Forster

Newcastle er komið upp í Meisatardeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni eftir frábæran útisigur á Tottenham um helgina. Einn leikmaður liðsins á mikinn þátt í velgengninni og sá hinn sami getur skilað magnaðri frammistöðu þrátt fyrir álag heima fyrir.

Brasilíski miðjumaðurinn Bruno Guimaraes lék mjög vel í sigrinum í gær en Newcastle keypti hann fyrir fjörutíu milljónir punda frá Lyon í janúar.

Eftir leikinn sagði Guimaraes frá því á samfélagsmiðlum að hann hafi ekki sofið í tvo sólarhringa fyrir leikinn á móti Tottenham.

Guimaraes hefur verið mjög upptekinn utan vallar því hann var að eignast soninn Matteo.

„Þetta er fyrir ykkur öll,“ skrifaði Bruno Guimaraes á Twitter.

„Tveir dagar án þess að sofa og ég gæti verið heima en ég vildi alltaf vera með ykkur. Takk fyrir stuðninginn og Matteo gefur ykkur koss,“ skrifaði Guimaraes og endaði síðan að bræða alla stuðningsmannasveitina á einu bretti.

„Hann er brasilískur Geordie,“ skrifaði Guimaraes en það er fólk kallað sem kemur frá Newcastle-upon-Tyne svæðinu.

Bruno Guimaraes missti af fjórum leikjum fyrr á tímabilinu vegna meiðsla og Newcastle vann engan þeirra. Eftir að hann kom aftur inn í liðið hefur Newcastle unnið fjóra af sex leikjum og ekki tapað neinum. Liðið hefur á sama tíma farið úr ellefta sæti upp í fjórða sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×