Enski boltinn

Gamli United maðurinn tekinn við liðinu þar sem hann byrjaði að spila níu ára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Carrick stýrði Manchester United til sigurs í tveimur leikjum.
Michael Carrick stýrði Manchester United til sigurs í tveimur leikjum. Getty/Matthew Peters

Michael Carrick, fyrrum miðjumaður Manchester United, er tekinn við liði Middlesbrough í ensku b-deildinni.

Carrick stýrði United liðinu í þremur leikjum árið 2021 eftir að Ole Gunnar Solskjær var látinn taka pokann sinn.

Hinn 41 árs gamli Carrick yfirgaf Manchester United eftir það og hafði ekki starfað við fótboltann síðan.

Middlesbrough hefur verið án fastráðins stjóra síðan að Chris Wilder var rekinn en Leo Percovich hafði stýrt liðinu í millitíðinni.

Fyrsti leikur Middlesbrough undir stjórn Carrick verður á móti Preston á laugardaginn.

Carrick ætlaði fyrst að hafna tilboði Middlesbrough en snerist svo hugur. Liðið er í miklum vandræðum í 21. sæti ensku b-deildarinnar.

„Middlesbrough var fyrsta atvinnumannafélagið sem ég spilaði fyrir níu ára gamall og það er sérstök tilfinning að snúa aftur þangað sem þjálfari,“ sagði Michael Carrick.

„Ég ólst upp á norðaustur svæðinu og geri mér fyllilega grein fyrir því hvað fótboltinn skiptir fólk hér miklu máli. Það eru forréttindi fyrir mig að fá þetta tækifæri og upplifa hér alla ástríðuna og eldmóðinn fyrir leiknum og fyrir Boro,“ sagði Carrick.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×