Lífið

Fóru á trúnó og hittust svo á AA-fundi fimm árum síðar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bjarki Viðarsson (t.v.) og Aron Mímir Gylfason (fyrir miðju) voru gestir Tomma Steindórs á X-inu 977 í dag.
Bjarki Viðarsson (t.v.) og Aron Mímir Gylfason (fyrir miðju) voru gestir Tomma Steindórs á X-inu 977 í dag.

Aron Mímir Gylfason, betur þekktur sem RonniGonni, og Bjarki Viðarsson, betur þekktur sem Jeppakall Doperman Rakki, hafa slegið í gegn á Twitter síðustu vikur. Þeir eru oft sagðir vera meðlimir „undirheima-Twitter“ en eru í dag báðir edrú og urðu meira að segja vinir í meðferð.

Aron og Bjarki voru gestir Tomma Steindórs á X-inu 977 í dag þar sem þeir ræddu um þessa nýtilkomnu frægð sína, hvernig þeir kynntust, hvað kæmi næst og fleira.

Líkt og áður kom fram eru þeir félagarnir sagðir vera hluti af undirheima-Twitter en þeir birta oft færslur um eiturlyf, handrukkanir, djammið og fleira.

Bjarki segir þá Ronna hafa fyrst hitt hvor annan í gegnum tölvuleikinn Counter Strike. Þá þekktust þeir ekki neitt. Nokkrum árum síðar voru þeir báðir í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og ætlaði þá hópur fólks saman á skemmtistaðinn Austur.

„Ég var nýbúinn að kaupa Nike Air Supra, geggjaðir skór. Félagar mínir fara inn á einhverjum sveitastígvélum. Dyravörðurinn segir við mig að ég kæmist ekki inn. Það væri dresscode,“ segir Bjarki. Aron fékk sömuleiðis ekki að fara inn á staðinn.

Upp úr því fóru þeir á sjö klukkutíma trúnó í leiguíbúð í bænum. Samt sem áður liðu fimm ár þar til þeir hittust næst.

„Ég hitti hann á AA-fundi og hafði aldrei séð neinn jafn lítinn í sér. Ég tók hann og kenndi hann aðeins á lífið,“ segir Aron um Bjarka.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Aron og Bjarka í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.