Enski boltinn

Núnez fékk hughreystandi skilaboð frá Suárez eftir rauða spjaldið gegn Palace

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Darwin Núnez og Luis Suárez fagna marki í landsleik með Úrúgvæ.
Darwin Núnez og Luis Suárez fagna marki í landsleik með Úrúgvæ. getty/Sebastian Frej

Darwin Núnez, framherji Liverpool, fékk skilaboð frá landa sínum, Luis Suárez, eftir að hann var rekinn af velli í leik Liverpool og Crystal Palace.

Nunez fékk rautt spjald í öðrum deildarleik sínum með Liverpool fyrir að skalla Joachim Andersen, varnarmann Palace. Hann var í kjölfarið dæmdur í þriggja leikja bann.

Núnez hefur greint frá því að hann hafi fengið skilaboð frá öðrum úrúgvæskum framherja sem hefur spilað fyrir Liverpool, Suárez, eftir atvikið gegn Palace. Fyrirfram væri kannski varhugavert að hlusta of mikið á Suárez þegar kemur að ráðleggingum að hafa stjórn á skapi sínu en Núnez var ánægður með þær.

„Hlustaðu á hálfvita eins og mig sagði hann við sig. Ég er mjög þakklátur fyrir skilaboðin og umhyggjuna sem hann sýndi mér,“ sagði Núnez.

„Þetta var mjög gott því margir hefðu ekki haft fyrir því að taka upp símann eða senda skilaboð en þetta var mjög mikilvægt fyrir mig. Luis er fyrirmynd og goð um allan heim. Ég er bara að byrja en hann þekkir þetta allt því hann hefur spilað fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Hann sagði mér að svona lagað gerðist í öllum leikjum, leikmenn reyndu að espa mig upp og sparka í mig og ég yrði að vera sterkur.“

Núnez skoraði í 0-3 sigri Liverpool á Ajax í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn. Hann hefur skorað fjögur mörk í síðustu fimm leikjum sínum og alls sex mörk fyrir Rauða herinn. Liverpool keypti Núnez frá Benfica fyrir um 85 milljónir punda í sumar.

Núnez og Suárez verða væntanlega báðir í landsliðshópi Úrúgvæ á HM í Katar. Úrúgvæar eru í riðli með Ganverjum, Portúgölum og Suður-Kóreumönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×