Enski boltinn

Newcastle United fékk að nota sex varamenn um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamaal Lascelles kemur inn á sem varamaður hjá Newcastle United á móti Aston Villa og tekur við fyrirliðabandinu.
Jamaal Lascelles kemur inn á sem varamaður hjá Newcastle United á móti Aston Villa og tekur við fyrirliðabandinu. EPA-EFE/PETER POWELL

Newcastle United er á frábærri siglingu í ensku úrvalsdeildinni og situr í Meistaradeildarsæti eftir þrjá sigra í röð og fimm sigra og ekkert tap í síðustu sex leikjum.

Newcastle liðið hefur aðeins tapað einum leik og fengið á sig fæst mörk af öllum liðum deildarinnar eða bara tíu í þrettán leikjum.

Newcastle skrifaði líka söguna á sérstakan hátt í 4-0 sigrinum á Aston Villa á St. James Park um helgina.

KNattspyrnustjórinn Eddie Howe varð þá sá fyrsti knattspyrnustjóri í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að nota sex varamenn í eina og sama leiknum.

Það er búið að fjölga úr þremur skiptingum upp í fimm í deildinni en það á þó ekki að vera hægt að skipta sex sinnum nema undir ákveðnum kringumstæðum.

Þessar ákveðnu kringumstæður komu upp í leiknum um helgina sem þýddi að Newcastle endaði leikinn með fleiri varamenn en leikmenn sem byrjuðu leikinn.

Reglan sem leyfði þetta snéri að viðbrögðum við því þegar leikmenn fá heilahristing. Aston Villa þurfti að taka markvörðinn Emiliano Martinez út af eftir að argentínski markvörðurinn fékk höfuðhögg. Fyrir vikið mátti Newcastle á móti nota eina skiptingu í viðbót.

Jacob Murphy og Matt Targett komu báðir inn á 71. mínútu, Jamaal Lascelles kom inn á 82. mínútu, Jonjo Shelvey kom inn á 83. mínútu og þeir Allan Saint-Maximin og Chris Wood komu báðir inn á 86. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×