Enski boltinn

„Ég hugsa ekki um HM í eina mínútu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford leyfir sér ekki enn að láta sig dreyma um HM í Katar þótt að það séu bara þrjár vikur í heimsmeistarakeppnina.
Marcus Rashford leyfir sér ekki enn að láta sig dreyma um HM í Katar þótt að það séu bara þrjár vikur í heimsmeistarakeppnina. EPA-EFE/PETER POWELL

Marcus Rashford ætlar ekki að láta hugann reika í átt til heimsmeistaramótsins í Katar heldur einbeita sér að fullu að liði Manchester United.

Rashford hefur fundið sig á ný með United liðinu og skoraði sigurmark liðsins á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Hann skoraði líka á móti FC Sheriff í Evrópudeildinni nokkrum dögum áður.

Rashford er nú kominn með sjö mörk í fimmtán leikjum deild og Evrópu á þessu tímabili og margir segja að hann hafi með þessu tryggt sér sæti í HM-hóp Englendinga í Katar sem verður tilkynntur seinna í þessum mánuði.

„Ég hugsa ekki um HM í eina mínútu,“ sagði Marcus Rashford eftir leikinn um helgina. Markið á móti Hammers var hans hundraðasta fyrir Manchester United. ESPN segir frá.

„Ég einbeiti mér bara að næsta leik. Við verðum að halda áfram að vinna leiki hér og það eru tveir deildarleikir eftir fram að heimsmeistaramóti. Ef við náum að vinna þessa tvo leiki þá höldum við okkur inn í baráttunni um fjögur efstu sætin og ég einbeiti mér því bara að því,“ sagði Rashford.

Bæði mörk Rashford í síðustu viku kom með skalla.

„Það er eitt að koma sér inn í teiginn en svo er það tæknin og löngunin að koma hausnum í boltann sem er eitthvað sem ég hef verið að vinna í. Það er gaman að fá tvö mörk út úr því,“ sagði Rashford.

Rashford átti erfiða tíma síðustu ár, var mikið meiddur og fann ekki skotskóna inn á vellinum en hvað hefur breyst á þessu tímabili?

„Orkan er bara allt öðruvísi, sem er það sem skiptir mestu, því orkan er miklu jákvæðari,“ sagði Rashford og hélt áfram:

„Bæði innan liðsins og líka á æfingasvæðinu sem skiptir mig mestu máli. Ég vil bara halda áfram og njóta þess að spila. Ef við höldum áfram að vinna þá er ég er viss um að það verði þannig,“ sagði Rashford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×