Enski boltinn

Umboðsmaður þýska stjórans: Klopp er ekki að fara að hætta með Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp gat brosað aðeins á Anfield í gærkvöldi.
Jürgen Klopp gat brosað aðeins á Anfield í gærkvöldi. Getty/Cristiano Mazzi

Liverpool vann 2-0 sigur á Napoli í Meistaradeildinni í gær og létti aðeins af pressunni á liðinu eftir tvö vandræðaleg töp í röð í ensku úrvalsdeildinni fyrir liðum í fallsæti.

Eftir fjögur deildartöp í byrjun móts, tvöfalt fleiri töp en allt síðasta tímabil, þá er staðan í ensku úrvalsdeildinni ekki björt hjá lærisveinum Jürgen Klopp.

Liverpool liðið er í níunda sæti deildarinnar og fimmtán stigum á eftir toppliði Arsenal. Það er í raun styttra niður í fallsæti en upp í Meistaradeildarsæti.

Marc Kosicke, umboðsmaður Jürgen Klopp, var spurður út í möguleikann á því að Klopp segi þetta gott og hætti með liðið.

„Ég get fullvissað ykkur um það að Jürgen Klopp er ekki að hugsa um að hætta með Liverpool liðið,“ sagði Marc Kosicke við Sky Sports.

Þetta eru góðar fréttir fyrir stuðningsmenn Liverpool sem vilja auðvitað halda þýska stjóranum sem lengst enda hefur hann gert frábæra hluti á Anfield þessi sjö ár.

„Sá möguleiki, að vandamál gætu skapast á þessu tímabili eftir allt álagið á síðustu leiktíð, var ein af sviðsmyndunum sem eigendur félagsins vissu að gæti komið upp,“ sagði Kosicke.

„Jürgen er ánægður með þann stuðning sem hann fær frá fólkinu sem ræður hjá Liverpool og hann er reglulega í sambandi við þau,“ sagði Kosicke.

„Hann elskar félagið, þetta lið og stuðningsmennina. Hann er staðráðinn að halda áfram og ná að koamst í gegnum þessi umskipti hjá Liverpool liðinu. Hann framlengdi ekki samning sinn til ársins 2026 fyrir ekki neitt,“ sagði Kosicke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×