Enski boltinn

Neville segir að Alexander-Arnold eigi ekki að fara á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Álitsgjafar á Englandi virðast geta rætt klukkutímunum saman um Trent Alexander-Arnold og stöðu hans í enska landsliðinu.
Álitsgjafar á Englandi virðast geta rætt klukkutímunum saman um Trent Alexander-Arnold og stöðu hans í enska landsliðinu. getty/Catherine Ivill

Gary Neville segir að slakur varnarleikur Trents Alexander-Arnold gæti kostað hann sæti í HM-hópi Englands.

Á fimmtudaginn tilkynnir Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, hvaða 26 leikmenn fara til Katar þar sem HM fer fram að þessu sinni.

Southgate hefur úr mörgum góðum kostum að velja í stöðu hægri bakvarðar, þar á meðal Alexander-Arnold. Hann hefur þó notað Liverpool-manninn sparlega og Neville skilur af hverju. Hann segir að mistök Alexander-Arnolds gætu reynst dýr fyrir enska landsliðið í útsláttarkeppninni á HM.

„Snilldin sem hann sýnir í sókninni er ekki þessa heims en við erum að tala um útsláttarkeppni og þar gæti þetta ráðist á einu augnabliki. Ég sé ekki hvernig Gareth Southgate getur farið inn í leik í útsláttarkeppni með Trent,“ sagði Neville eftir 1-2 sigur Liverpool á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær.

„Ég vil að hann verði besti hægri bakvörður allra tíma, því hann býr yfir þannig hæfileikum, en eins og sást í dag gætu mistök hans reynst Liverpool dýrkeypt. Hann er of bráður og ég sé hann fá á sig vítaspyrnu á HM. Ég held að Southgate muni ekki treysta honum í útsláttarleik og hann er þegar með fjóra frábæra hægri bakverði.“

Alexander-Arnold tefldi á tæpasta vað í fyrri hálfleiknum gegn Tottenham í gær þegar hann stjakaði við Ryan Sessegnon inni í vítateig en ekkert var dæmt.

Mohamed Salah skoraði bæði mörk Liverpool í leiknum á Tottenham leikvanginum í gær. Rauði herinn er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með nítján stig eftir þrettán leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×