Enski boltinn

Mamma Alexander-Arnolds bannaði honum að fá sér tattú

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Trent Alexander-Arnold eftir sigur Liverpool á Tottenham í úrslitaleik Meistaradeild Evrópu 2019.
Trent Alexander-Arnold eftir sigur Liverpool á Tottenham í úrslitaleik Meistaradeild Evrópu 2019. getty/Marc Atkins

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, segir að mamma Trents Alexander-Arnold hafi bannað honum að fá sér húðflúr eftir að liðið vann Meistaradeild Evrópu fyrir þremur árum.

Liverpool sigraði Tottenham, 2-0, í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2019. Eftir hann ætluðu Henderson og Alexander-Arnold að halda upp á áfangann með því að fá sér húðflúr. En mamma Alexander-Arnolds sagði þvert nei.

Enginn bannaði Henderson hins vegar að fá sér tattú og hann lét flúra mynd af Meistaradeildarbikarnum og dagsetninguna á úrslitaleiknum á lærið á sér.

„Ég fór og ætlaði að fá mér tattú með Trent Alexander-Arnold en mamma hans bannaði honum það á síðustu stundu,“ sagði Henderson í nýútkominni ævisögu sinni. Hann segir að Alexander-Arnold hafi fengið hugmyndina þegar þeir voru með enska landsliðinu í úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar.

„Hann sagði að við ættum að fá okkur tattú af Meistaradeildarbikarnum á kálfann á okkur. Þótt ég sé ekki með mörg flúr, bara af börnunum mínum, sagðist ég vera til. Hann sagðist líka hundrað prósent ætla að gera það.“

Daniel Agger, fyrrverandi leikmaður Liverpool, hjálpaði þeim Henderson og Alexander-Arnold að finna flúrara í Los Angeles sem gæti gengið í verkið. Þegar þeir ætluðu svo að fara til flúrmeistarans sagðist Alexander-Arnold ekki geta komið með því mamma hans hafi bannað honum að láta flúra sig. Henderson hélt að hann væri að grínast en svo var ekki.

Alexander-Arnold hafði minnst á fyrirætlanir sínar með flúrið við bróður sinn og hann hafði sagt mömmu þeirra frá því. Og hún hringdi þá strax í Alexander-Arnold og bannaði honum að láta bleka sig.

Henderson lyfti Meistaradeildarbikarnum eftir sigurinn á Tottenham á Wanda Metropolitano vellinum í Madríd 1. júní 2019. Hann var gerður að fyrirliða Liverpool eftir að Steven Gerrard yfirgaf félagið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×