Enski boltinn

Segja að eigendur Liverpool ætli að kaupa Jude Bellingham sem kveðjugjöf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham fagnar marki með liði Borussia Dortmund.
Jude Bellingham fagnar marki með liði Borussia Dortmund. Getty/Lars Baron

Fenway Sports Group fjárfestingafélagið á enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool en það gæti breyst á næstunni því í gær kom fram að Liverpool væri til sölu.

Spænska stórblaðið Marca er með stóra frétt þessu tengdu í dag en hún snýst um mögulega mikilvægustu kaup Liverpool í langan tíma.

Liverpool miðjan hefur öskrandi þörf fyrir liðstyrk eins og hefur ítrekað komið í ljós á þessu tímabili þar sem Liverpool hefur verið í talsverðum vandræðum í ensku úrvalsdeildinni.

Blaðamaður Marca slær því upp að fráfarandi eigendur Liverpool ætli sér að kaupa Jude Bellingham frá Borussia Dortmund sem eins konar kveðjugjöf til enska félagsins.

Hinn nítján ára gamli Bellingham hefur verið frábær með liði Dortmund og hefur meðal annars borið fyrirliðabandið hjá þýska liðinu. Hann hefur allt til alls til að vera kóngur á miðjunni næstu fimmtán árin.

Liverpool gæti keypt hann fyrir 87 milljónir punda en þarf ekki að eyða 130 milljónum punda ef marka má þessa frétt spænska blaðsins.

Liverpool ætlar að gera allt til þess að kaupa mögulega framtíðarleiðtoga á miðju liðsins. Jude Bellingham er með 4 mörk í 5 leikjum í Meistaradeildinni og er alls með sjö mörk og tvær stoðsendingar í átján leikjum i deild og Evrópu á þessari leiktíð.

Frábær spilamennska Bellingham að undanförnu hefur aukið mikið eftirspurnina eftir leikmanninum og hann gæti einnig sprungið út með enska landsliðinu á HM í Katar sem hefst seinna í þessum mánuði. Þá gæti kaupverðið líka hækkað enn meira.

Real Madrid er líka sagt mjög spennt fyrir leikmanninum og þá hafa Manchester United, Manchester City og Chelsea einnig áhuga á þessum frábæra leikmanni. Samkvæmt frétt Marca þá er Liverpool enn í forystu í kapphlaupinu eins og er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×