Enski boltinn

Klopp hrósaði „algjörlega stórkostlegum“ Kelleher eftir að hann vann enn eina vítakeppnina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Caoimhin Kelleher ver spyrnu Lewis Dobbin.
Caoimhin Kelleher ver spyrnu Lewis Dobbin. getty/Nathan Stirk

Caoimhin Kelleher var enn og aftur hetja Liverpool í vítaspyrnukeppni þegar liðið sló C-deildarlið Derby County úr leik í 3. umferð enska deildabikarsins í gær.

Kelleher varði þrjár spyrnur frá leikmönnum Derby í vítakeppninni sem þurfti að grípa til eftir að hvorugu liðinu tókst að skora í venjulegum leiktíma.

Þetta var í fjórða sinn sem Liverpool vinnur vítakeppni með Kelleher í markinu. Enginn markvörður í sögu félagsins hefur unnið fleiri vítakeppnir. Írinn hefur aðeins spilað átján leiki fyrir Liverpool og vinnur því vítakeppni nánast í fjórða hverjum leik. 

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum sáttur með markvörðinn unga eftir leikinn í gær en var undrandi þegar honum var sagt frá tölfræði hans í vítakeppnum.

„Í sögunni? Vá. Þetta voru virkilega góð víti. Þau voru öll á leiðinni í hornin. Hann er algjörlega stórkostlegur. Hann er nútíma markvörður. Yfirvegaður, getur spilað fótbolta og komið í veg fyrir að boltinn fari í netið,“ sagði Klopp.

„Ég er í skýjunum með hann. Þegar hann brosir veistu hversu miklu máli þetta skiptir fyrir hann. Hann á nóg eftir.“

Kelleher varði frá Conor Hourihane, Craig Forsyth og Lewis Dobbin í vítakeppninni. Harvey Elliott tryggði Rauða hernum svo farseðilinn í 4. umferð með því að skora úr fimmtu og síðustu spyrnu liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×