Enski boltinn

„Fótboltinn drap pabba“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nobby Stiles átti stóran þátt í að enska landsliðið varð heimsmeistari 1966 og var lykilmaður í velgengni Manchester United á 7. áratug síðustu aldar.
Nobby Stiles átti stóran þátt í að enska landsliðið varð heimsmeistari 1966 og var lykilmaður í velgengni Manchester United á 7. áratug síðustu aldar. getty/Dave Thompson

Sonur enska fótboltamannsins Nobbys Stiles er ekki í nokkrum vafa um að fótboltinn hafi drepið föður hans.

Stiles var í lykilhlutverki í enska landsliðinu sem varð heimsmeistari á heimavelli 1966. Tveimur árum síðar varð hann Evrópumeistari með Manchester United.

Stiles lést fyrir tveimur árum eftir að hafa glímt við heilabilun sem fótboltinn orsakaði að sögn Johns, sonar hans.

„Fótboltinn drap pabba. Þegar pabbi dó gáfum við heilann hans til rannsókna og niðurstöður þeirra voru óyggjandi. CTE var alls staðar,“ sagði John. CTE er heilaskaði sem orsakast af endurteknum höfuðhöggum. Fjölmargir leikmenn í NFL hafa þjáðst af CTE. Meðal einkenna CTE eru snemmbúin vitglöp, ofbeldishegðun og þunglyndi.

John segist hafa reynt að vara við hættum þess að skalla bolta og fá ítrekuð höfuðhögg en talað fyrir daufum eyrum. Hann segir að fótboltayfirvöld geri ekki nóg til að hjálpa þeim sem verða fyrir heilaskaða.

„Leikmenn verða að fá fræðslu. Ég hugsa um pabba en líka leikmenn kvennalandsliðsins sem unnu EM í sumar. Við viljum ekki að þær þjáist eins og pabbi. Svo eru leikmenn af minni kynslóð sem eru logandi hræddir við það sem bíður þeirra,“ sagði John sem var sjálfur fótboltamaður og spilaði meðal annars með Leeds United.

Fjórir úr heimsmeistaraliði Englands 1966 létust vegna heilabilunar og Sir Bobby Charlton þjáist nú af henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×