Enski boltinn

Vilja fá Haaland lánaðan í 28 daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Er smá obbolítil möguleiki á því að Pep Guardiola leyfi Erling Haaland að fara á láni?
Er smá obbolítil möguleiki á því að Pep Guardiola leyfi Erling Haaland að fara á láni? Getty/James Gill

Þótt þú spilar í sjöundu deild enska boltans þá er það ekki vegna skorts á metnaðarfullum ráðagerðum eða húmor.

Ashton United spilar í G-deildinni á Englandi sagði frá því á Twitter síðu félagsins að félagið hafi kannað möguleikann á því að fá einn besta sóknarmann heims á láni.

Þar erum við að tala um norska framherjann Erling Braut Haaland hjá Manchester City sem hefur skorað 23 mörk í 17 deildar- og Meistaradeildarleikjum á sínu fyrsta tímabili hjá City.

Ashton United gekk svo langt í gríninu að það sendi Manchester City formlega beiðni um lánsamning.

Haaland hefur nefnilega ekkert að gera næsta mánuðinn þar sem norska landsliðið komst ekki á HM í Katar og ekkert verður spilað í ensku úrvalsdeildinni fyrr en á annan í jólum.

Ashton menn vilja fá Haaland að láni í 28 daga og á þeim tíma ætti hann að ná fjórum leikjum með liðinu.

Pep Guardiola hafði smá áhyggjur af því að Haaland myndi leyfa sér aðeins of mikið í fríinu og kæmi of þungur til baka en Norðmaðurinn þarf líka smá tíma til að ná sér alveg góðum af meiðslunum sem háðu honum á dögunum.

City er fimm stigum á eftir Arsenal og þarf því á heitum Haaland að halda þegar fjörið byrjar á nýju eftir jól.

Litla félagið Ashton United er frá Ashton-under-Lyne, sem er úthverfi í Manchester ekki langt frá Ethiad Stadium, heimavelli stórliðs Manchester City. Heimavöllur liðsins, Hurst Cross, tekur 4500 manns en aðeins 250 í sæti.

Heimasíða Ashton United datt út undan öllu álaginu sem fylgdi en með öllu þessu grínu þá voru forráðamenn félagsins að auglýsa miða á heimaleiki liðsins.

Húmor þeirra hefur vissulega komið Ashton United liðinu á kortið því eftir þetta grín þá hafa margir heyrt nafn félagsins í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×