Enski boltinn

„Við þurftum þessa góðu byrjun“

Sindri Sverrisson skrifar
Raheem Sterling og Bukayo Saka voru skælbrosandi eftir frábæran fyrsta leik Englands.
Raheem Sterling og Bukayo Saka voru skælbrosandi eftir frábæran fyrsta leik Englands. Getty/Eddie Keogh

Bukayo Saka var alsæll eftir 6-2 stórsigur Englands gegn Íran í fyrsta leik á HM í Katar, eftir að Englendingar höfðu ekki unnið neinn af sex leikjum sínum í Þjóðadeildinni á þessu ári.

Saka skoraði tvö marka Englands í leiknum og þessi 21 árs gamli Arsenal-maður var því að vonum sérstaklega ánægður eftir leik:

„Ég get ekki lýst tilfinningunni. Þetta er stórkostlegt. Ég er svo glaður og stoltur. Við náðum líka sigrinum svo að þetta er mjög sérstakur dagur,“ sagði Saka.

„Við þurftum þessa góðu byrjun. Við höfum ekki verið að spila okkar besta leik í aðdraganda mótsins. Það var mikið tal og bollaleggingar um formið okkar en við sýndum öllum gæðin sem við höfum og hvers við erum megnugir.

Það er stórkostlegt að ná sigrinum undir svona mikilli pressu. En við verðum að sýna stöðugleika því næsti leikur er eftir örfáa daga og þá verðum við að vinna aftur,“ sagði Saka sem eftir að hafa verið einn þeirra Englendinga sem klúðruðu vítaspyrnu í úrslitaleik EM í fyrra virðist líklegur til afreka á HM í ár:

„Mér finnst ég vera á góðum stað. Ég finn stuðninginn og ástina frá stuðningsmönnum, þjálfarateyminu og liðsfélögum. Það er allt sem ég þarf. Ég er tilbúinn að leggja mig hundrað prósent fram og mun alltaf gera það í þessari treyju.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×