Enski boltinn

Kviðmágarnir á sama hóteli í Katar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atvikið fræga fyrir leik Chelsea og Manchester City í febrúar 2010 þegar Wayne Bridge neitaði að taka í höndina á John Terry.
Atvikið fræga fyrir leik Chelsea og Manchester City í febrúar 2010 þegar Wayne Bridge neitaði að taka í höndina á John Terry. getty/Julian Finney

Fornu fjendurnir John Terry og Wayne Bridge ku vera á sama hótelinu í Katar þar sem heimsmeistaramótið í fótbolta fer fram.

Fyrir rúmum áratug komst upp að Terry hafi átt í leynilegu sambandi við eiginkonu Bridges, Vanessu Perroncel. Terry og Bridge voru samherjar hjá Chelsea og í enska landsliðinu og málið vakti mikla athygli. Frægt var þegar Bridge neitaði að taka í höndina á Terry fyrir leik City og Chelsea 2010.

Samkvæmt The Times dvelja þeir Bridge og Terry á sama hótelinu í Doha í Katar um þessar mundir. Bridge er gestur FIFA á mótinu á meðan Terry starfar sem álitsgjafi hjá beIN Sports.

Þeir Bridge og Terry ku hafa lagt sig í líma við að hittast ekki á hótelinu sem er glænýtt og glæsilegt. Það yrði þó eflaust verulega vandræðalegt ef þeir myndu rekast á hvor annan á hótelganginum eða í lyftunni.

Bridge hætti í landsliðinu fyrir HM 2010 þar sem hann gæti ekki verið í sama leikmannahópi og Terry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×