Enski boltinn

Íhugaði sjálfsmorð eftir brottreksturinn frá Sky Sports

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andy Gray og Richard Keys voru látnir fara frá Sky Sports 2011 eftir að hljóðbútur þar sem þeir töluðu á niðrandi hátt um kvenkyns aðstoðardómara fór í dreifingu.
Andy Gray og Richard Keys voru látnir fara frá Sky Sports 2011 eftir að hljóðbútur þar sem þeir töluðu á niðrandi hátt um kvenkyns aðstoðardómara fór í dreifingu. getty/Tim Whitby

Andy Gray segir að hann hafi verið í sjálfsmorðshugleiðingum eftir að hann var rekinn frá Sky Sports fyrir ellefu árum fyrir niðrandi ummæli um konur.

Gray og Richard Keys leiddu umfjöllun Sky Sports um ensku úrvalsdeildina áður en þeim var sagt upp 2011 eftir að þeir létu niðrandi ummæli um kvenkyns aðstoðardómara falla.

Í viðtali við Piers Morgan á TalkTV sagðist Grya hafa verið langt niðri eftir brottreksturinn frá Sky Sports og hann íhugaði jafnvel að fremja sjálfsmorð.

„Ég var allt í einu í dimmum dal. Ég vissi að mér hefðu orðið á mistök og hausinn var farinn. Ef ekki hefði verið fyrir eiginkonu mína veit ég ekki hvað hefði gerst,“ sagði Gray.

„Ég var nálægt því að fremja sjálfsmorð. Einn daginn var ég með flösku og nokkrar pillur. Þetta var svona slæmt. Um tveggja vikna skeið sátu fjölmiðlar um mig og ég gat ekki farið út úr húsi. Þetta var mjög skrítið en þetta er að baki núna.“

Gray og Keys starfa núna fyrir beIN Sports í Katar. Viðtalið við þá var tekið í sama landi þar sem heimsmeistaramótið fer nú fram.

Vert er að taka fram að í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Píeta samtökin. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×