Þá fagnar Listval einnig eins árs veru í Hörpu en þær segja markmið Listvals frá upphafi hafa verið að auðvelda fólki að fjárfesta í myndlist og gera hana aðgengilegri.
Frá opnun Listvals í Hörpu hefur Listval sýnt og selt samtímamyndlist eftir tugi listamanna. „Við finnum fyrir mikilli ánægju meðal almennings á starfseminni og aðsóknin endurspeglar það,“ segir Elísabet Alma Svendsen.
Fyrir utan rýmið í Hörpunni sjá þær líka um sýningar í Norr11 á Hverfisgötunni þar sem Kristín Morthens sýnir nú málverk en einnig halda þær úti sýningarrými á Granda þar sem Áslaug Íris Friðjónsdóttir er nýbúin að opna. Þá bjóða þær einnig upp á myndlistarráðgjöf fyrir heimili og fyrirtæki.
„Við komum inn á heimili fólks og aðstoðum einstaklinga við að finna réttu verkin,“
segir Helga Björg.
„Já og mjög oft erum við fengnar til að endurraða verkum á heimilum og jafnframt finna ný,“ bætir Elísabet við.
Á sama tíma og sýningin opnar í gallerínu verða öll verkin einnig til sýnis á heimasíðu Listvals. Opnunin fer fram á milli klukkan 12:00 og 17:00 á laugardag. Sýningin stendur til 7. janúar en opið verður á virkum dögum frá 12:00 til 18:00 og á milli 12:00 og 16:00 um helgar.