Enski boltinn

Tólf þúsund miða­eig­endur á leik Man. United fá ekki inn­göngu á Old Traf­­ford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungur stuðningsmaður Manchester United fylgist með deildabikarleik Manchester United á móti Aston Villa á Old Trafford fyrr í vetur.
Ungur stuðningsmaður Manchester United fylgist með deildabikarleik Manchester United á móti Aston Villa á Old Trafford fyrr í vetur. Getty/Matthew Peters

Manchester United þarf að fækka áhorfendum á deildabikarleik sinn á móti Burnley vegna þess að sjúkraliðar eru í verkfalli.

Manchester United tekur á móti b-deildarliðinu í sextán liða úrslitum deildabikarsins og fer leikurinn fram 21. desember. Það er uppselt á leikinn en það er ljóst að enskir fótboltaáhugamenn þyrstir í það að fara á völlinn eftir langt hlé vegna heimsmeistaramótsins í Katar.

Tólf þúsund stuðningsmenn munu fá þær slæmu fréttir að miðinn sem þeir eiga á leikinn veitir þeim ekki lengur inngöngu á völlinn. Manchester United segir frá þessum leiðinlegu tíðindum á heimasíðu sinni.

Ástæðan er verkfall sjúkraliða sem þýðir að United getur ekki verið með fullan fjölda áhorfenda. Færri sjúkraliðar þýðir að United getur ekki fylgt öryggisreglum á fótboltavöllum.

Old Trafford tekur 74 þúsund áhorfendur en aðeins 62 þúsund fá að horfa á Burnley leikinn.

Verkföll setja mikinn svip á lífið í Englandi nú í aðdraganda jóla en ástandið er slæmt í landinu eftir erfiða mánuði með verðbólgu og öðrum vandræðum við rekstur heimila.

Forráðamenn UNited reyndu að færa leikinn yfir á annan dag en það var ekki mögulegt þar sem það er spilað svo þétt á næstunni eftir þetta langa HM-frí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×