Enski boltinn

Segir að City verði að vinna Meistaradeildina til að fullkomna tíma sinn hjá félaginu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola er farinn að lengja eftir þriðja Evrópumeistaratitilinn á þjálfaraferlinum.
Pep Guardiola er farinn að lengja eftir þriðja Evrópumeistaratitilinn á þjálfaraferlinum. getty/Matt McNulty

Pep Guardiola segir að hann verði að stýra Manchester City til sigurs í Meistaradeild Evrópu til að tími hans hjá félaginu teljist fullkomnaður.

Guardiola tók við City 2016. Undir stjórn Spánverjans hefur liðið unnið allt sem hægt er að vinna, nema Meistaradeildina. City komst næst því í fyrra en þá tapaði liðið í úrslitum fyrir Chelsea, 1-0.

Guardiola framlengdi nýverið samning sinn við City og stefnir að því að vinna Meistaradeildina áður en hann yfirgefur félagið.

„Ég viðurkenni að þetta er bikarinn sem við viljum og tími minn hér verður ekki fullkomnaður ef við vinnum hann ekki,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Liverpool í 4. umferð enska deildabikarsins.

„Það er samt ekki eina ástæðan fyrir því að ég framlengdi. Ég geri allt fyrir félagið. Að sjálfsögðu er þetta bikarinn sem við höfum ekki unnið og við reynum það. Ég hef á tilfinningunni að þeir vinni þetta fyrr en seinna. Við reynum það af öllum okkar mætti.“

City mætir RB Leipzig í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Fyrri leikurinn er í Þýskalandi 22. febrúar en sá seinni á Englandi 14. mars.

Guardiola stýrði Barcelona til sigurs í Meistaradeildinni 2009 og 2011 en tókst ekki að vinna keppnina með Bayern München sem hann stýrði á árunum 2013-16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×