Enski boltinn

Van Dijk sannfærði Gakpo um að velja Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Virgil van Dijk og Cody Gakpo fagna.
Virgil van Dijk og Cody Gakpo fagna. getty/Eric Verhoeven

Virgil van Dijk átti stóran þátt í því að sannfæra samherja sinn í hollenska landsliðinu, Cody Gakpo, um að ganga í raðir Liverpool.

Ensku bikarmeistararnir hafa gengið frá kaupunum á Gakpo sem sló í gegn á HM í Katar þar sem hann skoraði þrjú mörk. Talið er að kaupverðið verði á endanum 44 milljónir punda.

Gakpo hefur greint frá því að hann hafi rætt mikið við Van Dijk undanfarna daga. „Við höfum talað mikið saman í síma. Hann sagði mér að þetta væri rétta leiðin fyrir mig, til að þroskast og verða betri leikmaður,“ sagði Gakpo.

„Hann sagði að félagið væri mjög stórt en samt eins og fjölskylda. Það er mikilvægt fyrir mig því ég er mikill fjölskyldumaður. Hann hafði bara gott eitt að segja um félagið. Ég hlakka mikið til að spila á Anfield. Ég hef heyrt góða hluti um leikvanginn og stemmninguna. Ég get ekki beðið.“

Gakpo gengur formlega til liðs við Liverpool þegar hann hefur fengið atvinnuleyfi á Englandi. Næsti leikur Liverpool er gegn Leicester City í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×