Enski boltinn

Frábærir á móti risunum í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Brentford fagna hér sigri sínum á Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.
Leikmenn Brentford fagna hér sigri sínum á Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. AP/Ian Walton

Thomas Frank og lærisveinar hans í Brentford hafa reynst stóru liðunum erfiðir í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Brentford vann 3-1 sigur á Liverpool í gærkvöldi eftir að hafa komist í 2-0 með frábærum fyrri hálfleik. Þetta var fyrsti sigur félagsins á Liverpool frá því fyrir Seinni heimsstyrjöldina eða frá árinu 1938.

Þessi úrslit þýða að Brentford hefur nú unnið Manchester United, Manchester City og Liverpool á þessu tímabili auk þess að ná jafntefli á móti bæði Chelsea og Tottenham.

Eina stóra liðið sem hefur unnið Brentford er Arsenal en liðið fékk 3-0 skell á Emirates í september. Hinir tapleikirnir hafa komið á móti Fulham, Newcastle og Aston Villa.

Í síðustu fjórum leikjum hefur Brentford liðið unnið Manchester City, West Ham og Liverpool sem öll voru í Evrópukeppni á þessari leiktíð.

Sigurinn í gær þýðir að liðið er komið upp í sjöunda sæti, upp fyrir Chelsea og aðeins tveimur stigum á eftir Liverpool og bara fjórum stigum frá Evrópusæti.

Danski knattspyrnustjórinn Thomas Frank er heldur betur að gera frábæra hluti með liðið sem hann fór sjálfur með upp í ensku úrvalsdeildina á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×