Enski boltinn

Segir að Chelsea eigi að reka Potter: „Nú er nóg komið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Graham Potter situr í heitu sæti.
Graham Potter situr í heitu sæti. getty/Marc Atkins

Fyrrverandi leikmaður Chelsea segir að mælirinn sé fullur eftir 4-0 tap liðsins fyrir Manchester City í ensku bikarkeppninni í gær og nú þurfi að reka knattspyrnustjórann Graham Potter.

Chelsea átti ekki möguleika gegn Englandsmeisturunum í gær og var 3-0 undir í hálfleik. City bætti svo einu marki við í seinni hálfleik og vann því mjög svo öruggan 4-0 sigur.

„Herra Potter, nú er nóg komið. Eitthvað þarf að breytast,“ sagði Frank Leboeuf á ESPN í gær. Hann lék rúmlega tvö hundruð leiki fyrir Chelsea á sínum tíma.

„Þetta er ekki félagið sem ég þekki. Þeir eru svo langt frá því að vera Evrópumeistarar. Ég er mjög pirraður yfir því sem ég hef séð. Þetta er vanvirðandi. Þeir gera einu sinni ekki neitt til að gera stuðningsmennina stolta. Berjist! Leggið ykkur fram!“

Chelsea er í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og dottið út úr bæði ensku bikarkeppninni og deildabikarnum.

Potter var ráðinn stjóri Chelsea í byrjun september eftir að Thomas Tuchel var sagt upp störfum hjá félaginu.


Tengdar fréttir

Guardiola hvetur Chelsea til að halda tryggð við Potter

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hvetur eigendur Chelsea til að halda tryggð við þjálfara liðsins, Graham Potter, þrátt fyrir slæmt gengi liðsins á tímabilinu. Spánverjinn segir að það sé eðlilegt að þjálfarar þurfi tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×