Enski boltinn

Hefði Bruno getað skorað markið umdeilda án Rashford?

Smári Jökull Jónsson skrifar
Marcus Rashford setur hendurnar upp í loft til merkis um að hann hafi ekki snert boltann áður en Bruno Fernandes skoraði.
Marcus Rashford setur hendurnar upp í loft til merkis um að hann hafi ekki snert boltann áður en Bruno Fernandes skoraði. Vísir/Getty

Jöfnunarmark Bruno Fernandes fyrir Manchester United í leiknum gegn Manchester City á laugardaginn var mjög umdeilt. Á Twitter er nú hægt að sjá hvernig atburðarásin hefði litið út án Marcus Rashford.

Manchester United vann risasigur á nágrönnum sínum í Manchester City á laugardaginn. Bruno Fernandes skoraði jöfnunarmark United í leiknum en markið var og er mjög umdeilt. Marcus Rashford var augljóslega rangstæður en dómarinn Stuart Atwell mat sem svo að hann hefði ekki haft áhrif á leikinn áður en Fernandes skoraði.

„Rashford truflaði bæði markmanninn okkar og miðverðina og ég spurði dómarana afhverju Haaland fékk ekki víti en engin svör,“ sagði Pep Guardiola í viðtali eftir leikinn.

Á Twitter hefur notandinn BlueCityBrain birt áhugaverðar myndir sem sýnir atburðarásina fyrir mark Fernandes þegar búið er að klippa Marcus Rashford út. Á myndunum sést greinilega að varnarmaður City, Manuel Akanji, er mun nær boltanum heldur en Fernandes og líklegt að hann hefði auðveldlega náð til hans hefði Rashford ekki verið fyrir.

Þá er einnig bent á að staða markvarðarins Edersen sé kolröng þar sem hann var á leið út úr markinu til að mæta Rashford. 

Á Twitter-síðu Sportbible er hægt að bera saman myndir án og með Rashford.

Sitt sýnist þó hverjum um myndirnar en boltinn er að rúlla í átt til Fernandes þegar þær eru teknar. Flestir eru þó á því að Akanji hefði náð boltanum fyrst og markið því aldrei orðið. Akanji var sjálfur mjög óhress þegar hann mætti í viðtal eftir leik.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá er fyrsta markið brandari. Ég sá Rashford, hann var augljóslega rangstæður þannig að ég spilaði hann rangstæðan.“

„Hann hleypur alveg þar til á síðustu sekúndu og stoppar þegar boltinn er fyrir framan hann og hann er beint fyrir framan Ederseon, tilbúinn að skora þegar Bruno Fernandes kallar á hann. Ég skil að hann snerti ekki boltann en hann spratt 30 metra, alveg þar til á síðustu stundu. Fyrir mér er þetta klárlega rangstaða.“

Akanji segir að dómarinn hafi ekki skoðað atvikið í VAR og bætir við að fyrir tímabilið hafi verið útskýrt að atvik sem þetta yrði dæmt sem rangstaða.

Erik Ten Hag, knattspyrnustjóri United, viðurkenndi að hann hefði ekki verið ánægður ef hann hefði verið hinu megin við borðið.

„Ég hefði ekki verið ánægður ef mitt lið hefði fengið á sig svona mark. Ég get séð vonbrigðin hinu megin en ég get líka séð að dómarinn stóð sig vel.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×