Enski boltinn

„Fer ekki nema einhver segi mér að fara“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp gefur ekkert eftir þótt Liverpool hafi gengið illa í vetur.
Jürgen Klopp gefur ekkert eftir þótt Liverpool hafi gengið illa í vetur. getty/Naomi Baker

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar ekki að hætta hjá félaginu nema honum verði gert að gera það.

Liverpool hefur gengið illa á tímabilinu og er í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tíu stigum frá Meistaradeildarsæti. Enn er þó baráttuhugur í Klopp sem ætlar ekki að kasta inn hvíta handklæðinu.

„Annað hvort breytist staða stjórans eða margir aðrir hlutir. Hvað mig varðar mun ég ekki fara nema einhver segi mér að fara,“ sagði Klopp sem gaf samt í skyn að breytinga væri að vænta hjá Liverpool.

„Kannski kemur tími þar sem við þurfum að breyta öðrum hlutum. Við sjáum til með það en það er eitthvað fyrir framtíðina, eins og í sumar, en ekki núna. Ég hef tíma til að hugsa um það en núna þurfum við að spila betri fótbolta.“

Liverpool sækir Wolves heim í endurteknum leik í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×