Enski boltinn

Völlurinn frosinn og leikur Chelsea og Liverpool flautaður af

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Flauta þurfti leik Chelsea og Liverpool af vegna þess að völlurinn var frosinn.
Flauta þurfti leik Chelsea og Liverpool af vegna þess að völlurinn var frosinn. Clive Rose/Getty Images

Það voru aðeins rúmar sex mínútur liðnar af leik Chelsea og Liverpool í ensku Ofurdeildinni þegar flauta þurfti leikinn af. Hættulegar aðstæður sköpuðust fyrir leikmenn og aðra þátttakendur leiksins þar sem völlurinn var frosinn.

Þrátt fyrir að hafa skoðað völlinn fyrir leik var það ekki fyrr enn eftir að hann hófst að dómarar og aðrir framkvæmdaraðilar leiksins áttuðu sig á því að völlurinn hafi ekki verið í nægilega góðu standi til að hægt væri að leika á honum.

Eftir leikinn hafa heyrst háværar gagnrýnisraddir sökum þess að vellirnir sem leikið er á í kvennadeildum Englands eru almennt ekki upphitaðir og því ljóst að mikil hætta getur skapast yfir vetrartímann.

Þjálfarar beggja liða gagnrýndu ákvörðunina um að leikurinn skildi fara fram í dag, enda hafi verið augljóst að völlurinn var óleikfær.

„Þau vildu bíða og sjá hvernig þetta myndi fara, það var útskýringin,“ sagði Matt Beard, þjálfari Liverpool í viðtali eftir að leikurinn var flautaður af.

„Það var ekki öruggt að vera þarna hjá varamannabekkjunum. Það voru nokkrir blettir á miðsvæði vallarins og hér og þar sem þetta var í lagi, en á stærstum hluta vallarins var það ekki.“

„Hitastigið var ekkert að fara að batna í dag. Það á bara að kólna.“

Emma Hayes, þjálfari Chelsea, tók í sama streng og segir að það hafi í raun verið vitleysa að hefja leik.

„Maður sá það strax frá fyrstu mínútu að þetta var eins og svell á köntunum,“ sagði Hayes.

„Það er ekki undir okkur þjálfurunum komið að ákveða hvort leikirnir fari fram. Það er undir knattspyrnusambandinu og dómurum komið. Nú er komið að því að við verðum að fá hita undir vellina. Við verðum að taka leikinn okkar alvarlega.“

„Leikurinn átti aldrei að fara fram,“ bætti Hayes við.

Staðan er óásættanleg

Eins og áður segir hafa háværar gagnrýnisraddir heyrst eftir að leikur Chelsea og Liverpool var flautaður af. Janine Beckie, fyrrverandi leikmaður Manchester City, segir stöðuna óásættanlega.

„Fjögur ár sem ég spilaði á Englandi og þetta gat komið fyrir hvaða lið sem er í hverri einustu viku. Þetta er ein af þrem stærstu deildum í heimi. Þetta er óásættanlegt og leikmenn eiga skilið að spila á góðum völlum þar sem þessi möguleiki er ekki til staðar. Kvennaboltinn er kominn miklu lengra en þetta!“ ritar Beckie á Twitter-síðu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×