Enski boltinn

Segir Antony kraftlausan og hann komist aldrei framhjá neinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antony í baráttu við Oleksandr Zinchenko í leik Arsenal og Manchester United í gær.
Antony í baráttu við Oleksandr Zinchenko í leik Arsenal og Manchester United í gær. getty/Catherine Ivill

Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður Manchester United, var ekki hrifinn af frammistöðu Antonys í tapi liðsins fyrir Arsenal, 3-2, í ensku úrvalsdeildinni í gær. Ferdinand finnst Brassinn vera kraftlítill og finnst hann aldrei leika á varnarmanninn sem mætir honum.

„Hann fer aldrei framhjá neinum og ég sit og hugsa: hefur þetta alltaf verið svona? Ég sá Thomas Partey, sem er kannski ekki sá sneggsti, fara framhjá honum og hugsaði að það væri enginn kraftur í fótunum á honum,“ sagði Ferdinand.

„Hann er leikinn kantmaður en þú vilt samt að þeir geti farið framhjá manninum sínum,“ bætti Ferdinand við.

Antony var í byrjunarliði United en var tekinn af velli á 71. mínútu fyrir landa sinn, Fred. Þá var staðan 2-2. Eddie Nketiah skoraði sigurmark Arsenal á lokamínútu leiksins.

Antony, sem kom til United frá Ajax fyrir tímabilið, hefur skorað fimm mörk í nítján leikjum fyrir United í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×