Enski boltinn

Nýttu sér vesenið hjá Everton og stálu Danjuma

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arnaut Danjuma er genginn til liðs við Tottenham.
Arnaut Danjuma er genginn til liðs við Tottenham. Vísir/Getty

Arnaut Danjuma gekk í dag til liðs við Tottenham á láni frá spænska félaginu Villareal. Brotthvarf Frank Lampard frá Everton gerði það að verkum að félagið missti af leikmanninum.

Í byrjun vikunnar leit allt út fyrir að Arnaut Danjuma væri á leið til Everton og var Hollendingurinn búinn að gangast undir læknisskoðun hjá félaginu og aðeins átti eftir að ganga frá smáatriðum áður en félagaskiptin yrðu staðfest.

Eftir að Everton tilkynnti að Frank Lampard, fyrrum knattspyrnustjóra liðsins, hefði verið sagt upp breyttust hlutirnir hins vegar töluvert. Tottenham Hotspur kom skyndilega inn í myndina og Danjuma var mættur til samningaviðræðna í London skömmu síðar.

Í dag tilkynnti síðan Tottenham að Danjuma væri genginn til liðs við félagið. Danjuma er ætlað að styrkja sóknarlínu Tottenham liðsins sem er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Tottenham er einnig komið í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir AC Milan en Danjuma er gjaldgengur með Lundúnaliðinu í þeim leikjum.

Forráðamenn Everton naga sig eflaust í handarbakið að hafa misst af Danjuma, sem leikið hefur sex leiki og skorað tvö mörk fyrir hollenska landsliðið. Danjuma hefur skorað tólf mörk í rúmlega þrjátíu leikjum fyrir Villareal en hann lék með Bournmouth árin 2019 til 2021 þar sem hann skoraði fimmtán mörk í 47 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×