Enski boltinn

Kolo Toure rekinn eftir aðeins 59 daga hjá Wigan

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kolo Toure tók við sem þjálfari Wigan í nóvember.
Kolo Toure tók við sem þjálfari Wigan í nóvember. Vísir/Getty

Kolo Toure hefur verið rekinn sem þjálfari Wigan eftir að hafa aðeins verið við stjórnvölinn í rúma tvo mánuði. 

Toure tók við sem þjálfari Wigan Athletic í nóvember en liðið leikur í næst efstu deild á Englandi, Championship deildinni. Félaginu hefur gengið afleitlega í vetur og ráðning Toure hafði lítið að segja því liðið hefur ekki náð í sigur í síðustu níu leikjum.

Dropinn sem fyllti mælinn var tap gegn Luton á heimavelli á þriðjudag en það var annað tap liðsins á heimavelli á aðeins fjórum dögum. Wigan er í neðsta sæti Championship deildarinnar, fjórum stigum frá öruggu sæti.

Framkvæmdastjóri Wigan, Malachy Brannigan, segir að það hafi verið rétti tíminn að breyta til núna. Kevin Betsy og Ashvir Johal, aðstoðarmenn Toure yfirgefa einnig félagið.

„Í fyrsta lagi langar mig til að þakka Kolo, ásamt Kevin og Ash, fyrir þeirra framlag hjá félaginu. Úrslitin á vellinum hafa ekki verið þau sem við viljum og þó þetta hafi verið erfið ákvörðun þá er stjórnin á þeirri skoðun að hún hafi veirð nauðsynleg til að gefa okkur sem besta möguleika á að vera áfram í Championship deildinni á næsta tímabili.“

Kolo Toure átti farsælan feril að baki sem leikmaður og lék lengi vel með Arsenal auk þess að spila fyrir Manchester City, Liverpool og Celtic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×