Enski boltinn

U-beygja hjá Everton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sean Dyche er á leið aftur í ensku úrvalsdeildina.
Sean Dyche er á leið aftur í ensku úrvalsdeildina. getty/Catherine Ivill

Búist er við því að Sean Dyche verði ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Everton í dag.

Everton hefur verið í stjóraleit síðan Frank Lampard var rekinn í byrjun vikunnar. Marcelo Bielsa var efstur á blaði Everton-manna en svo virtist sem hann hafi ekki haft áhuga á starfinu þótt hann hafi komið til Lundúna í gær.

Everton tók því nokkuð skarpa U-beygju og samkvæmt enskum fjölmiðlum er búist við því að Dyche verði ráðinn stjóri liðsins áður en dagurinn er á enda.

Dyche hefur verið án starfs síðan hann var látinn fara frá Burnley í apríl síðastliðnum. Hann stýrði Burnley í tíu ár (2012-2022) og náði stórgóðum árangri með liðið. Hann kom því meðal annars í Evrópudeildina.

Everton er í nítjánda og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig, tveimur stigum frá öruggu sæti. Næsti leikur liðsins, og væntanlega sá fyrsti undir stjórn Dyches, er gegn toppliði Arsenal á Goodison Park laugardaginn 4. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×