Enski boltinn

E-deildarliðið hans Ryan Reynolds fær annan leik í enska bikarnum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Paul Mullin virtist vera að skjóta Wrexham áfram í næstu umferð.
Paul Mullin virtist vera að skjóta Wrexham áfram í næstu umferð. vísir/Getty

Leikur Wrexham og Sheffield United er líklega skemmtilegasti leikurinn sem spilaður var í 32-liða úrslitum enska bikarsins um helgina.

Leiknum lauk með 3-3 jafntefli og munu liðin því mætast að nýju og þá á heimavelli Sheffield.

Sheffield United er í 2.sæti ensku B-deildarinnar á meðan Wrexham er í sama sæti í ensku E-deildinni en síðarnefnda liðið er í eigu Hollywood leikaranna Ryan Reynolds og Rob McElhenney.

Oli McBurnie náði forystunni fyrir Sheffield United strax í upphafi en á tíu mínútna kafla í upphafi síðari hálfleiks tókst heimamönnum að koma til baka og ná forystunni. Oliver Norwood var fljótur að jafna metin aftur fyrir Sheffield en á 71.mínútu missti B-deildarliðið mann af velli með rautt spjald.

Paul Mullin virtist vera að tryggja Wrexham farseðil í 16-liða úrslit með marki á 86.mínútu en allt kom fyrir ekki því John Egan jafnaði metin á 96.mínútu og lokatölur því 3-3.

Wrexham fær því aukaleik á Bramall Lane þar sem útkljáð verður hvort liðið fer áfram.

Stoke City vann 3-1 sigur á Stevenage á sama tíma og er komið áfram í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×