Enski boltinn

Loka­­dagur gluggans: Enzo dýrastur í sögunni og Arsenal sótti Evrópu­meistara til ná­grannanna

Ingvi Þór Sæmundsson, Sindri Sverrisson og Hjörtur Leó Guðjónsson skrifa
Enzo Fernandez verður að öllum líkindum kynntur sem leikmaður Chelsea á næstunni.
Enzo Fernandez verður að öllum líkindum kynntur sem leikmaður Chelsea á næstunni. Marvin Ibo Guengoer - GES Sportfoto/Getty Images

Félagsskiptaglugginn í Evrópu lokaði í kvöld og eins og við var að búast var af nægu að taka. Stærstu fréttirnar eru þær að Chelsea náði að öllum líkindum að ganga frá kaupum á argentínska miðjumanninn Enzo Fernandez á metfé og Arsenal fékk Evrópumeistarann Jorginho frá nágrönnum sínum í Chelsea.

Vísir var með beina textalýsingu af öllu því helsta sem gerðist á markaðnum í dag og í kvöld, en hægt er að skruna í gegnum lýsinguna hér fyrir neðan.

Eins og áður segir náði Chelsea að öllum líkindum að ganga frá kaupum á nýkrýnda heimsmeistaranum Enzo Fernandez fyrir metfé. Þegar þetta er ritað hefur ekki borist staðfesting á vistaskiptunum frá félögunum, en Chelsea mun greiða Benfica um 105 milljónir punda fyrir leikmanninn. Það samsvarar tæplega 18,3 milljörðum íslenskra króna og Enzo Fernandez verður þar með dýrasti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi. Áður var Jack Grealish sá dýrasti þegar Manchester City keypti hann á 100 milljónir punda frá Aston Villa.

Enzo Fernandez var ekki í leikmannahópi Benfica er liðið vann 3-0 sigur gegn Arouca fyrr í kvöld, en eftir leikinn staðfesti þjálfari liðsins, Roger Schmidt, að félagsskipti leikmannsins til Chelsea væru frágengin.

Þá virðast nágrannar Chelsea í Arsenal hafa gert kjarakaup þegar félagið keypti ítalska miðjumanninn Jorginho frá Chelsea á 12 milljónir punda. Jorginho lék lykilhlutverk í ítalska landsliðinu er liðið varð Evrópumeistari árið 2020.

Manchester United nældi sér einnig í austurríska leikmanninn Marcel Sabitzer á láni frá Bayern München og þýska stórveldið fékk Joao Cancelo á láni frá Manchester City. 

Nýliðar Nottingham Forest fengu markvörðinn Keylor Navas á láni frá franska stórveldinu Paris Saint-Germain, ásamt því að miðjumaðurinn Jonjo Shelvey gekk í raðir félagsins frá Newcastle.

Þá náði Tottenham loksins að krækja í Pedro Porro frá Sporting eftir langar og strangar samningaviðræður milli félaganna.

Klúður kvöldsins átti sér þó stað á milli Chelsea og Paris Saint-Germain. Hakim Ziyech var mættur til frönsku höfuðborgarinnar og virtist vera að ganga til liðs við Parísarliðið. Síðar bárust þó fréttir af því að Chelsea hafi ekki náð að skila inn öllum pappírum á réttum tíma og Ziyech sat því fastur í París. Þegar þetta er ritað eru liðin enn að reyna að finna lausn á því máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×