Enski boltinn

Tæklingin reyndist áfall fyrir Manchester United

Sindri Sverrisson skrifar
Christian Eriksen yfirgaf leikvanginn á hækjum eftir þessa tæklingu Andy Carroll, í bikarsigri Manchester United um helgina.
Christian Eriksen yfirgaf leikvanginn á hækjum eftir þessa tæklingu Andy Carroll, í bikarsigri Manchester United um helgina. Getty/Martin Rickett

Nú er orðið ljóst að danski miðjumaðurinn Christian Eriksen mun ekki spila með Manchester United næstu mánuðina en búist er við því að hann verði frá keppni fram í lok apríl eða byrjun maí vegna ökklameiðsla.

Eriksen meiddist í bikarleik gegn Reading um helgina við slæma tæklingu framherjans Andy Carroll, sem þó slapp við spjald. Daninn hefur verið United afar mikilvægur á leiktíðinni og ljóst að um áfall er að ræða fyrir stjórann Erik ten Hag og hans lið.

Í dag er síðasta dagur félagaskiptagluggans á Englandi og því ekki útilokað að United bregðist við og sæki sér miðjumann áður en dagurinn er úti.

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir þó ljóst að liðið sé vel sett með Fred og Casemiro saman á miðjunni enda spili þeir saman í brasilíska landsliðinu. Hann ætli að treysta á þá miðjumenn sem liðið sé með.

Konaté úr leik næstu vikurnar

Meiðslavandræði Liverpool hafa einnig aukist en miðvörðurinn Ibrahima Konaté verður frá keppni næstu 2-3 vikurnar vegna meiðsla í læri. 

Telegraph segir að einu viðskiptin sem forráðamenn Liverpool hafi verið með í huga í dag hafi verið möguleg sala á miðverðinum Nat Phillips en að ólíklegt sé að hann fari í dag í ljósi meiðsla Konaté og Virgils van Dijk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×