Enski boltinn

Ten Hag segir að tækling Carrolls eigi ekki heima í fótbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andy Carroll var rekinn af velli þegar Reading tapaði fyrir Manchester United í ensku bikarkeppninni á laugardagonn.
Andy Carroll var rekinn af velli þegar Reading tapaði fyrir Manchester United í ensku bikarkeppninni á laugardagonn. getty/James Gill

Andy Carroll er ekki á jólakortalista Eriks ten Hag, knattspyrnustjóra Manchester United, eftir að hann meiddi Christian Eriksen í bikarleiknum gegn Reading á laugardaginn.

Carroll tæklaði Eriksen illa í leiknum en slapp við refsingu fyrir þá tæklingu. Hann var seinna rekinn út af. Eriksen yfirgaf Old Trafford á hækjum og í gær var greint frá því að Daninn yrði frá keppni fram til mánaðarmótanna apríl maí.

Ten Hag var eðlilega ekki sáttur við tæklingu Carrolls. „Ég er vonsvikinn með þetta. Í fótbolta eru reglur og viðmið til að verja leikmenn. Við viljum að bestu leikmennirnir geti spilað,“ sagði Hollendingurinn.

„Þessi tækling, og tæklingarnar tvær eftir þetta, eiga ekki heima á fótboltavelli því þú hættir á að meiða andstæðing.“

United brást hratt við meiðslum Eriksens og fékk Marcel Sabitzer á láni frá Bayern München á lokadegi félagaskiptagluggans í gær.

United tekur á móti Nottingham Forest í seinni leik liðanna í undanúrslitum deildabikarsins í kvöld. United er með annan fótinn í úrslitaleiknum eftir að hafa unnið Forest, 0-3, í fyrri leiknum.

Leikur United og Forest hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×