Enski boltinn

Jóhann Berg lagði upp í þægi­legum sigri Burnl­ey sem stefnir hraðbyri upp í úr­vals­deildina

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Berg á ferð með Burnley fyrr í vetur.
Jóhann Berg á ferð með Burnley fyrr í vetur. Vísir/Getty

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Burnley stefna óðfluga á sæti í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en liðið vann í dag enn einn sigurinn í Championship-deildinni.

Jóhann Berg og félagar hafa farið hamförum í Championship-deildinni í vetur og fyrir leikinn í dag voru þeir búnir að vinna átta leiki í röð í deildinni. Jóhann Berg var í byrjunarliði þjálfarans Vincent Kompany í dag en Jóhann Berg hefur verið að spila vel að undanförnu.

Og sigurgangan hélt áfram í dag á útivelli gegn Norwich. Burnley komst í 1-0 strax á 8.mínútu með marki frá Anass Zaroury og staðan í hálfleik var 1-0.

Gestirnir gerðu hins vegar út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks. Fyrst skoraði Vitinho eftir góða fyrirgjöf frá Jóhanni Berg og Hjalmar Ekdal kom Burnley í 3-0 sex mínútum síðar.

Jóhann Berg fór af velli á 73.mínútu en það kom ekki að sök og Burnley vann þægilegan 3-0 sigur og er með sjö stiga forskot á Sheffield United á toppi deildarinnar. Þá eru þeir tuttugu stigum á undan Middlesbrough í þriðja sætinu en tvö efstu lið deildarinnar fara beint upp í úrvalsdeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×