Enski boltinn

Harry Kane orðinn markahæstur í sögu Tottenham

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mark Harry Kane gegn Manchester City þýðir að hann er nú markahæstur í sögu félagsins.
Mark Harry Kane gegn Manchester City þýðir að hann er nú markahæstur í sögu félagsins. Vísir/Getty

Harry Kane er orðinn markahæsti leikmaður í sögu Tottenham Hotspur en mark hans gegn Manchester City í dag þýðir að hann hefur nú skorað meira en goðsögnin Jimmy Greaves.

Tottenham og Manchester City eigast nú við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Leikurinn er nú þegar orðinn sögulegur því þegar Harry Kane kom Tottenham í 1-0 varð hann í leiðinni markahæsti leikmaður í sögu Tottenham.

Goðsögnin Jimmy Greaves skoraði 266 mörk fyrir Tottenham en hann lék með Tottenham á árum 1961-1970. Harry Kane skoraði sitt fyrsta mark fyrir Tottenham í desember árið 2011 þegar Harry Redknapp var stjóri liðsins. Mörkin eru nú orðin 267 talsins.

Mark hans í dag kom á 15.mínútu leiksins og auk þess að slá markamet Tottenham þá var þetta mark númer 200 hjá Kane í ensku úrvalsdeildinni. Hann er aðeins þriðji leikmaðurinn í sögu deildarinnar sem nær þeim áfanga og er kominn í hóp með Alan Shearer og Wayne Rooney.

Kane hefur mest skorað 41 mark á einu tímabili fyrir Tottenham en það gerði hann tímabilið 2017-18.

Kane er ásamt Wayne Rooney markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi en báðir hafa þeir skorað 53 mörk fyrir England.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×