Enski boltinn

Dagný snuðuð um vítaspyrnu þegar West Ham náði í stig gegn Arsenal

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir í leik með West Ham fyrr á tímabilinu.
Dagný Brynjarsdóttir í leik með West Ham fyrr á tímabilinu. Twitter síða Manchester United

Dagný Brynjarsdóttir lék allan leikinn fyrir West Ham sem náði í stig gegn sterku liði Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Arsenal hefur verið í fréttunum síðustu daga enda bárust fréttir af því að liðið hefði lagt fram tilboð í Alessia Russo leikmann Manchester United en samkvæmt fréttum hefði hún orðið dýrasti leikmaður heims hefði tilboðum Arsenal verið tekið.

Arsenal hefur verið eitt sterkasta liðið á Englandi undanfarin misseri en fyrir leikinn í kvöld voru þær sex stigum á eftir toppliði Chelsea en höfðu spilað tveimur leikjum minna. West Ham var í sjöunda sætinu en deildina skipa tólf lið.

Arsenal var sterkara liðið í leiknum í kvöld. Markmaður West Ham, Mackenzie Arnold, varði oft á tíðum vel en Arsenal átti alls níu skot sem hittu rammann í kvöld. Gestunum gekk þó ekki sérlega vel að skapa opin færi en Arnold varði í nokkur skipti frá hinni sænsku Stina Blacksteinus.

Í fyrri hálfleik hefði West Ham átt á fá vítaspyrnu og þá var Dagný Brynjarsdóttir í aðalhlutverki. Hún var tekin niður af Rafaelle leikmanni Arsenal en dómarinn sá ekki ástæðu til að dæma.

Lokatölur í kvöld 0-0 og West Ham er áfram í sjöunda sæti deildarinnar, í þægilegri fjarlægð frá fallbaráttunni. Arsenal er núna fimm stigum frá toppliði Chelsea en á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×