Enski boltinn

Conte hringdi í Kane frá Ítalíu eftir að hann bætti markametið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane talar við Antonio Conte í síma.
Harry Kane talar við Antonio Conte í síma. getty/Tottenham Hotspur FC

Antonio Conte hringdi beint í Harry Kane eftir sigur Tottenham á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær. Kane skoraði eina mark leiksins og varð í leiðinni markahæstur í sögu Spurs.

Kane kom boltanum í netið á 15. mínútu eftir sendingu frá Pierre-Emilie Højbjerg. Þetta var hans 267. mark fyrir Tottenham og bætti þar með markamet Jimmys Greaves fyrir félagið.

Conte gat ekki verið á hliðarlínunni á Tottenham leikvanginum í gær þar sem hann er heima á Ítalíu að jafna sig eftir að hafa gengist undir aðgerð þar sem gallblaðran var fjarlægð úr honum. Hann fylgdist samt að sjálfsögðu með leiknum og var ekki lengi að hringja í Kane eftir hann.

„Þú gerir mig stoltan,“ heyrðist Conte segja við Kane sem fékk sér sæti í búningsklefanum þegar hann tók við símtalinu frá stjóranum sínum.

Eftir sigurinn er Spurs aðeins einu stigi frá Meistaradeildarsæti. Næsti leikur liðsins er gegn Leicester City á laugardaginn.

Kane bætti ekki bara markamet Tottenham í leiknum í gær heldur varð hann einnig aðeins þriðji leikmaðurinn til að skora tvö hundruð mörk í ensku úrvalsdeildinni. Hinir eru Alan Shearer (260) og Wayne Rooney (208).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×