Enski boltinn

Vill að Klopp biðji blaðamanninn afsökunar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp hefur um ýmislegt að hugsa þessa dagana.
Jürgen Klopp hefur um ýmislegt að hugsa þessa dagana. getty/Clive Mason

Dietmar Hamann, fyrrverandi leikmaður Liverpool, hefur gaman að því að pota í Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra liðsins, og lét tækifæri sem bauðst eftir uppákomu á blaðamannafundi sér ekki úr greipum ganga.

Á blaðamannafundi eftir 3-0 tap Liverpool fyrir Wolves á laugardaginn neitaði Klopp að svara spurningu frá blaðamanni The Athletic, James Pearce, um hvernig hann undirbyggi lið sitt fyrir leiki. 

„Það er mjög erfitt að tala við þig ef ég er hundrað prósent hreinskilinn. Ég myndi helst ekki vilja gera það,“ sagði Þjóðverjinn. Hamann skilur ekki hvað landa sínum gekk til og vill að hann biðjist afsökunar.

„Mér fannst þetta mjög skrítið og barnalegt. Hann verður að gera sér grein fyrir því að skilaboðum hefur rignt yfir Pearce og fjölskyldu hans eftir þessa uppákomu því Klopp svaraði ekki spurningu,“ sagði Hamann.

„Þetta var fullkomlega eðlileg spurning og James á skilið afsökunarbeiðni. Liverpool er félag sem er byggt á virðingu og einhver ætti að segja Klopp: þetta er Liverpool og þú getur ekki gert þetta. En ég efast um að nokkur hjá félaginu þori að standa uppi í hárinu á honum sem þeir ættu að gera. Eins og staðan er núna hjálpa þessir hlutir hvorki honum né félaginu.“

Illa hefur gengið hjá Liverpool á tímabilinu. Liðið er úr leik í bikarkeppninni og deildabikarnum og er í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, ellefu stigum frá Meistaradeildarsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×